-
Að koma í leikskólann
Foreldrar fylgi börnunum inn á heimastofur og afhenda þau í hendur starfsmanni. Þannig er tryggt að ábyrgð á barninu sé í höndum starfsmanns. Einnig er þetta nauðsynlegt til að skilaboð berist á báða bóga og eykur á tengsl milli starfsfólks og foreldra.
Komi upp vandamál varðandi einstök börn, þá sér deildarstjóri um að ræða það við viðkomandi foreldra.
Foreldrar eru ávallt velkomnir í Brekkuborg til að taka þátt og fylgjast með því sem fram fer eða til að ræða einhverja þætti í starfseminni.
-
Aðlögun
Upplýsingar væntanlegar
-
Fatnaður barna
Fatnaður barna og útivera
Börn eiga að hafa með sér aukaföt í leikskólann og setja þau í box merkt viðkomandi barni. Einnig þarf að vera með fatnað til útiveru með tilliti til veðurs sem er hengdur upp á snagana eða raðaður í hólfin. Vinsamlegast skiljið tösku eða poka ekki eftir í hólfinu svo að það auðveldi barninu umgengni um hólfið sitt.
Mikilvægt er að börnin séu þannig klædd að þau geti tekið þátt í öllu leikskólastarfi úti sem inni t.d. með efnivið eins og lím og málningu.
Áríðandi er að merkja allan fatnað barnanna, þar sem fataklefinn er sameiginlegur öllum deildum.
Við hvetjum börnin til sjálfstæðis og er því mikilvægt að fara yfir allan fatnað í lok dags og taka með þau föt sem eru blaut og óhrein. Einnig þarf að athuga hvort að vanti aukaföt í boxið. Á föstudögum þarf að tæma hólf og snaga barnanna.
-
Flutningur milli deilda
Áður en nývistun barna hefst er innanhúsaðlögun barna sem eru fyrir á leikskólanum. Þegar tímasetning liggur fyrir eru foreldrar upplýstir. Foreldrum er gerð grein fyrir aðlögunarferli og kynntar áherslur nýju deildarinnar og þær breytingar sem eru samhliða flutningunum.
-
Foreldrafundur
Að hausti er haldinn foreldrafundur með foreldrum allra barna leikskólans þar sem kynnt er ársáætlun fyrir komandi leikskólaár, markmið og starfsfólk.
Á þessum fundi kynnir formaður foreldrafélagsins starfsemi þess og hvað það stendur fyrir, einnig fer fram kosning á nýjum fulltrúum foreldra í stjórn í staðinn fyrir þá sem hafa gengið úr stjórninni.
-
Kaffidagar
Kaffidagar eru fjórum sinnum á ári. Þá er boðið upp á molakaffi fyrir foreldra á deildum. Kaffidagar eru klukkan 15.30-16.30. Foreldrum gefst þar tími til að spjalla við starfsfólk og aðra foreldra og auka á tengsl. Einnig er þetta gott tækifæri að kynna sér verkefni barnanna.
-
Nývistunarviðtal
Áður en barn byrjar í leikskólanum eru foreldrar boðaðir í viðtal þar sem farið er yfir starfsemi leikskólans, gerður dvalarsamningur og skipst á upplýsingum. Í þessu viðtali er einnig farið yfir aðlögunaráætlun. Viðtalið sitja foreldrar barnsins, leikskólastjóri og deildarstjóri.
Deildarstjórar bjóða foreldrum upp á einstaklingsviðtöl tvisvar sinnum á ári (haustönn og vorönn) eða oftar ef þörf krefur. Þar er skipst á upplýsingum um viðkomandi barn. Foreldrar eru hvattir til að byðja um viðtal telji þeir þörf á því.
-
Opið hús
Að vori höfum við "opið hús" þar sem börnin bjóða gestum að kynna sér menningu leikskólans og starfsemina sem þar fer fram. Þessi dagur er tilvalin fyrir foreldra sem eru að bíða eftir plássi í Brekkuborg til að kynna sér leikskólann.
- Upplýsingar um tímasettningu er að finna í dagatali leikskólans
-
Opnunartími leikskólans
Brekkuborg er opin frá 07:30 til 17:00
-
Sumarfrí
Hér eru að finna upplýsingar um sumarlokanir í leikskólum Reykjavíkurborgar.
Í reglum um leikskólaþjónustu segir:
1.b Opnunartími, skipulagsdagar og sumarleyfi leikskóla
"Börn sem dvelja í leikskólum Reykjavíkurborgar taka að lágmarki tuttugu virka daga í sumarleyfi. Leikskólastjóri ákveður, að höfðu samráði við starfsmenn og foreldraráð viðkomandi leikskóla, hvort leikskólinn verði opinn allt sumarið eða loki samfellt í tíu virka daga til tuttugu virka daga."
-
Veikindi
Það er réttur barna að vera heima þegar þau eru veik. Leikskólinn er fyrir frísk börn og gert er ráð fyrir að börnin geti tekið þátt í öllu starfi leikskólans bæði inni og úti. Börn sem erum með hita eða almenna vanlíðan eiga að vera heima þar til þau ná heilsu. Fái barn smitandi sjúkdóm verður það að dvelja heima þar til smithætta er liðin hjá, það er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitsemi við önnur börn. Veikt barn getur smitað önnur börn og starfsfólk.
Þegar barnið kemur aftur í leikskólann eftir veikindi getur það fengið að vera inni í einn til tvo daga ef aðstæður leyfa.
Ekki er talið að hægt sé að fyrirbyggja veikindi með inniveru í leikskólanum.
Ef barn veikist í leikskólanum hringjum við í foreldra og það er því mikilvægt að leikskólinn hafi rétt símanúmer.Æskilegt er að foreldrar tilkynni veikindi barna sinna í leikskólann t.d. með tölvupósti This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 567-9380.
Lyfjagjafir í leikskólanum skal takmarka eins og kostur er. Starfsfólk leikskólans gefur ekki lyf nema brýn nauðsyn beri til. Ef barnið þarf að taka lyf á leikskólatíma skal foreldri hafa samband við deildarstjóra og koma öllum upplýsingum til hans.